Síðan 1906 hefur þjónusta Símans leikið lykilhlutverk fyrir Ísland, hún tengir fólk hvort við annað og gerir fjarlægðir að engu. Þjónusta Símans hefur aldrei verið eins mikilvæg og í nútímaþjóðfélagi, hún einfaldar líf okkar og auðveldar okkur öllum að lifa lífinu.
Árið 2021 var krefjandi sem litaðist af COVID-19 en starfsfólk lagðist á eitt að skila góðu ársverki, með samheldni og ánægju viðskiptavina að leiðarljósi.
Síðastliðið ár var mjög viðburðarríkt í sögu Símans og mörgum stórum áföngum var náð. Í upphafi síðasta árs voru tilteknir fjarskiptainnviðir seldir frá Símanum til Mílu og sölu á Sensa var einnig lokið á fyrsta ársfjórðungi. Síminn og Míla voru endurfjármögnuð á vormánuðum og í kjölfarið var umtalsverðum fjármunum skilað til hluthafa. Allt árið var unnið að valkostagreiningu varðandi framtíðarskipulag Símasamstæðunnar þar sem kostir og gallar eignarhalds Símans á Mílu voru metnir. Þessu ferli lauk í október síðastliðnum með sölu Mílu til franska innviðasjóðsins Ardian. Á sama tíma og unnið var að þessum umfangsmiklu verkefnum, oft á tíðum við krefjandi aðstæður í miðjum heimsfaraldri, skilaði Síminn sinni bestu rekstrarafkomu. Tekjur Símasamstæðunnar á síðasta ári voru 24 ma.kr., hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 10,6 ma.kr. og hagnaður eftir skatta var 5,2 ma.kr. sem er mjög góður árangur.
Sala Mílu stendur upp úr þegar litið er til verkefna síðasta árs. Viðskiptin eru enn til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og er áætlað að þau gangi endanlega eftir um mitt þetta ár. Fjárhagslegra áhrifa viðskiptanna gætir því ekki í ársreikningi fyrir árið 2021. Heildarvirði Mílu var metið á 78 ma.kr. í viðskiptunum en að frádregnum skuldum Mílu mun Síminn fá greidda um 59 ma.kr., annars vegar 44 ma.kr. í reiðufé og hins vegar 15 ma.kr. í formi seljandaláns til þriggja ára. Bókfærður hagnaður Símans af viðskiptunum er áætlaður um 46 ma.kr. Þetta eru háar upphæðir og mikil búbót fyrir hluthafa Símans. Það er því óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til við söluna, bæði hvað varðar að hámarka söluandvirðið og ekki síður hvað það varðar að fá reynslumikinn og öflugan aðila að rekstri Mílu.
Það hefur því miður gætt ákveðins misskilnings í umræðunni um sölu Mílu og því er vert að halda hér nokkrum staðreyndum til haga. Í fyrsta lagi er það svo að Síminn, og þar með Míla, hefur verið í einkaeigu síðan 2005 Hér er því ekki verið að selja þjóðareign eins og sumir hafa haldið fram. Ríkið fékk á sínum tíma meira fyrir Símann að núvirði heldur en virði Símasamstæðunnar er í dag. Frá því Síminn var einkavæddur hefur samstæðan fjárfest fyrir á fimmta tug milljarða króna í fjarskiptainnviðum. Það er því ljóst að verðmæti Mílu byggir annars vegar á kaupverði Símans í einkavæðingunni árið 2005 og þeim fjárfestingum sem hafa átt sér stað síðan þá. Það er því ekki rétt að verið sé að selja eignir sem ríkið hefur fjármagnað.
Í öðru lagi er þjóðaröryggi ekki stefnt í neina tvísýnu með viðskiptunum. Míla mun eftir sem áður þurfa að uppfylla ítarlegar kröfur hins opinbera um öryggi fjarskiptainnviða og skiptir þá engu máli hver eigandi Mílu er. Ardian hefur að auki gert samkomulag við stjórnvöld um tilteknar kvaðir vegna mikilvægis fjarskiptaneta Mílu og starfshópur fjögurra ráðuneyta hefur komist að þeirri niðurstöðu að kaup Ardian ógni ekki þjóðaröryggi.
Í þriðja lagi er með sölunni á Mílu verið að leysa upp fyrirkomulag sem Samkeppniseftirlitið og keppinautar Símans hafa gagnrýnt í áraraðir sem sérstakt samkeppnisvandamál, það er lóðrétt samþætting fjarskiptainnviða á heildsölustigi og fjarskiptaþjónustu á smásölustigi. Með sátt sem Síminn gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2013 má segja að Síminn og Míla hafi í reynd verið aðskilin og að Síminn hafi þá afsalað sér réttindum sem eðlilegt væri að eigandi hafi yfir eignum sínum. Salan er því framfaraspor hvað varðar uppbyggingu fjarskiptamarkaðarins enda slitið fullkomlega á eignartengslin.
Í fjórða lagi er þetta einmitt það sem hefur verið að gerast víða um heim á síðustu misserum; fjarskiptainnviðir hafa verið aðskildir frá fjarskiptaþjónustu og innviðirnir eru í kjölfarið sameinaðir eða samnýttir betur. Ástæða þessa er að síauknar kröfur neytenda og hröð tækniframþróun kalla á miklar fjárfestingar í fjarskiptainnviðum sem ekki er unnt að réttlæta nema sérhæfing og stærðarhagkvæmni sé til staðar. Fjarskiptainnviðafélög eru víða komin í eigu sérhæfðra innviðasjóða á borð við Ardian sem koma með sérþekkingu og fjármagn að borðinu, og gera auk þess mun lægri ávöxtunarkröfu en tíðkast almennt meðal fjárfesta.
Í sölu Mílu felast því margvísleg tækifæri sem geta nýst öllum þeim sem koma að fjarskiptum á landinu. Allir neytendur fjarskiptaþjónustu hér á landi munu njóta þess að sérhæfður aðili eins og Ardian, með þolinmótt fjármagn, mun hraða uppbyggingu fjarskiptakerfa hér á landi og auka samnýtingu og hagkvæmni í leiðinni.
Sala Mílu er því í alla staði rökrétt og góð niðurstaða fyrir alla hagsmunaaðila Símans.
Gengisþróun hlutabréfa í Símanum hefur verið hluthöfum hagfelld að undanförnu, en hlutabréf í félaginu hækkuðu um 50% á síðasta ári og undanfarin þrjú ár nemur hækkunin 221%. Virði hlutafjár Símans hefur aukist um 54 ma.kr. á síðustu þremur árum en á sama tíma hefur félagið skilað rúmlega 15 ma.kr. til hluthafa með arðgreiðslum og endurkaupum. Stærstur hluti þessarar tæplega 70 ma.kr. verðmætaaukningar hefur skilað sér til íslenskra lífeyrissjóða sem eiga um 60% hlutafjár í félaginu.
Þessi mikla virðisaukning endurspeglar þá vinnu sem átt hefur sér stað hjá félaginu og eiga stjórnendur og starfsmenn Símans mikið hrós skilið fyrir þeirra framlag enda hafa þetta verið einstaklega krefjandi og annasamir tímar í rekstri félagsins.
Hluthafar Símans njóta uppskerunnar þegar vel gengur og það eiga starfsmenn Símans líka að gera. Uppfærð starfskjarastefna Símans, sem m.a. tekur til kaupréttarkerfis fyrir alla 300 starfsmenn félagsins, hefur það að markmiði að binda betur saman hag hluthafa, starfsfólks og stjórnenda til lengri tíma litið. Er það mat stjórnar að með sölu Mílu hefjist nýr kafli í sögu Símans og skynsamlegt sé að samtvinna hagsmuni í rekstrinum til næstu ára.
Þegar gengið hefur verið frá sölu Mílu síðar á þessu ári munu hluthafar Símans þurfa að taka ákvörðun um ráðstöfun söluandvirðis Mílu, en burtséð frá því hvernig þeir fjármunir verða nýttir er alveg ljóst að Síminn mun þá standa á ákveðnum krossgötum.
Eftir sölu Mílu mun Síminn, eftir sem áður, standa styrkum fótum. Ég sé Símann í kjölfarið fyrir mér sem mun kvikara og léttara þjónustufyrirtæki, laust undan viðjum eignarhaldsins á Mílu,
sem ætlar að gera enn betur fyrir viðskiptavini sína sem eru tugþúsundir heimila og fyrirtækja. Fjarskipta- og afþreyingarheimurinn er í stöðugri þróun og hið öfluga starfsfólk Símans mun verða í kjörstöðu til að uppfylla væntingar viðskiptavinanna, með sífellt betri vörum og þjónustu.
„Rekstarniðurstaða ársins var góð og sýnir glögglega að starfsfólk missti ekki sjónar af rekstrinum þrátt fyrir sölu Sensa og Mílu auk mikilla breytinga þegar eignir tengdar farsíma- og netrekstri voru seldar frá Símanum til Mílu. Tekjur aukast, rekstrarhagnaður eykst og einnig er myndarlegur vöxtur í hagnaði og þá gildir einu hvort horft sé á áframhaldandi rekstur eða ekki. Góður árangur í rekstri er afrakstur hagræðingaraðgerða árið 2020 og vel heppnaðra útvistunarverkefna sem hafa skilað aukinni skilvirkni. Verðbólguþróun undanfarið hefði reynst félaginu erfiðari ef umræddar breytingar hefðu ekki orðið. Tekjuvöxtur varð í farsímaþjónustu og sjónvarpi en samdráttur í talsímaþjónustu sem er ekki óvænt þróun. Tekjur af gagnaflutningi stóðu í stað. Samkeppni á fjarskiptamarkaði er hörð og við erum stolt af árangri okkar á tekjuhlið og okkar sterka vöruframboði. Vel heppnaðri sölu Sensa lauk á árinu og varð söluhagnaður tæpir 2,2 milljarðar króna. Reikningsskil félagsins sýna nú hver áhrif verða af sölu Mílu sem gengið verður frá á þessu ári. Ljóst er að Síminn stendur á afar traustum fótum og framtíðin sennilega aldrei verið meira spennandi.“
Jón Sigurðsson er fæddur 1978, hann var fyrst kosinn í stjórn félagsins 21. mars 2019. Jón er viðskiptafræðingur og er forstjóri Stoða hf., en Stoðir eiga 15,41% hlutafjár í Símanum. Jón er stjórnarformaður S121 ehf., og situr í stjórn Stoða hf, K190 hf., Sökkla eignarhaldsfélags ehf., Bjarg Invest ehf., GÞ Holding ehf., S380 ehf., Straumnes ehf., Straumnes eignarhaldsfélags ehf., Straumnes Ráðgjafar eh., Square ehf., Port I ehf., Barone I ehf. og S120 ehf.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir er fædd 1963, hún var fyrst kosin í stjórn félagsins 11. mars 2021. Sigrún Ragna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1987, fékk löggildingu sem endurskoðandi árið 1990 og lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2007. Sigrún Ragna er stjórnarformaður Stefnis hf. og Auðkennis ehf. auk þess sem hún situr í stjórn Ekin ehf.
Bjarni Þorvarðarson er fæddur 1966, hann var fyrst kosinn í stjórn félagsins 21. mars 2019. Bjarni lauk B.Sc. prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1989 og síðar meistaragráðum í rafmagnsverkfræði frá University of Wisconsin, Madison, 1991, í alþjóðaviðskiptum frá ISG í París 1993 og fjármálafræðum frá London Business School árið 1998. Bjarni er stjórnarformaður Coripharma ehf., Coripharma Holding hf., Matorka ehf. og Stakrar Gulrótar ehf., og situr í stjórn, Mílu ehf., Hafnarhrauns ehf., BKP Invest ehf., Inning ehf., og Sinnir ehf.
Arnar Þór Másson er fæddur 1971, hann var fyrst kosinn í stjórn félagsins 11. mars 2021. Arnar Þór er BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í stjórnmálafræði frá London School of Economics and Political Science. Arnar Þór er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarformaður Marel hf.
Björk Viðarsdóttir er fædd 1978, hún var fyrst kosin í stjórn félagsins 11. mars 2021. Björk útskrifaðist sem Cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2004 og lauk málflutningsprófi fyrir héraðsdómi 2009. Björk er framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM hf. Björk situr ekki í stjórn annarra félaga.
25.543 m.kr.
Tekjur samstæðunnar voru 25.543 m.kr. á árinu 2021.
10.603 m.kr
EBITDA samstæðunnar var 10.603 m.kr. árið 2021, þ.a. 5.502 m.kr. af áframhaldandi starfsemi.
31.079 m.kr.
Í árslok var eigið fé samstæðunnar 31.079 m.kr. og eiginfjárhlutfallið 44,6%.
3.760 m.kr.
Handbært fé frá rekstri var 3.760 m.kr. á árinu 2021.
Einstök aðlögunarhæfni starfsfólks og þolinmæði í síbreytilegu vinnuumhverfi er eitt af því sem að stendur upp úr á síðasta ári. Sífelldar breytingar á samkomutakmörkunum og snöggar breytingar á aðstæðum fólks í sóttkví, smitgát eða einangrun höfðu bein áhrif á starfsemi Símans, en það kom ekki að sök. Þjónusta við viðskiptavini og daglegur rekstur kerfa varð ekki fyrir áhrifum vegna þessa, þökk sé starfsfólki Símans sem bæði var orðið vant þessu síkvika umhverfi og leysti hverja áskorun með glæsibrag.
Við héldum áfram að fjárfesta í mannauðnum okkar, þannig hefur aðsókn í endurmenntunar verkefni Símans aukist mjög. Verkefnið snýst um að hvetja starfsfólk án framhaldsmenntunar með ráðum og dáðum að feta menntaveginn frekar, sem í senn skapar verðmætara starfsfólk og eflir einstaklinginn enn frekar.
Síminn endurskoðaði sjálfbærnistefnu Símans á árinu sem leið og voru nýjar vörður lagðar í þeirri vegferð. Þrjú Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru sett í forgrunn, valin með starfsemi Símans að leiðarljósi og getu okkar til að hafa jákvæð áhrif. Það var ánægjulegt að sjá hversu margt í starfsemi Símans snertir með jákvæðum hætti samfélagið og við munum gera meira í þeim efnum.
Jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbygging og sjálfbærar borgir og samfélög voru þau þrjú heimsmarkmið sem að Síminn setti í forgrunn. Öll tengjast þau beint fjölmörgum verkefnum sem Síminn er í, bæði innan- og utanhúss en fjölmörg tækifæri liggja í þjónustu og mannauði Símans til að vera hreyfiafl til góðra verka.
Starfsfólk
Fjöldi starfsfólks 302.
Stöðugildi
290 stöðugildi.
Meðalstarfsaldur í árum
10,4 ár.
Launamunur
Launamunur kynjanna er 1,6%.
Innan Símans er starfandi starfskjaranefnd. Nefndin er undirnefnd stjórnar félagsins og nefndarmenn skipaðir af stjórn í samræmi við starfsreglur stjórnar félagsins. Hlutverk starfskjaranefndar er að tryggja að starfskjör yfirstjórnenda taki mið af afkomu fyrirtækisins til langs tíma, frammistöðu þeirra sjálfra og hagsmunum hluthafa. Forstjóri er ábyrgur fyrir starfskjörum annarra stjórnenda og ber honum að tryggja að starfskjör séu ávallt í samræmi við starfskjarastefnu félagsins eins og hún er útfærð af starfskjaranefnd. Markmið starfskjaranefndar er að tryggja að félaginu sé jafnan kleift að laða til sín og halda í starfi hæfum stjórnendum. Í þessu skyni ráðfærir nefndin sig við ytri mannauðsráðgjafa um starfskjör í sambærilegum fyrirtækjum þegar þörf krefur. Hlutverki nefndarinnar er ætlað að ná til þeirra verkefna sem kveðið er á um í Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja frá árinu 2021.
Starfskjaranefnd Símans skipa nú Jón Sigurðsson formaður nefndarinnar, Arnar Másson og Björk Viðarsdóttir. Starfskjaranefnd hélt fjóra fundi árið 2021 og einn fund í byrjun árs 2022. Var full mæting á alla fundi.
Stjórn samþykkti fyrirkomulag starfskjara forstjóra byggt á tillögu starfskjaranefndar fyrir starfsárið 2021. Jafnframt átti starfskjaranefnd samráð við forstjóra um laun framkvæmdastjórnar Símans fyrir starfsárið 2021. Föst laun forstjóra voru hækkuð um 5,7% og að meðaltali hækkuðu föst laun framkvæmdastjórnar um 6,8%. Námu þær breytingar lægri prósentutölu en hækkun almennrar launavísitölu tímabilsins sem var 7,3%. Haldið var inni breytilegum þætti, sem réðst annars vegar af EBITDA afkomu félagsins og hins vegar ýmsum einstaklingsbundnum frammistöðutengdum atriðum. Hámark aukagreiðslna var jafnt þriggja mánaða launum. Byggt á afkomu ársins og annarra þátta ávann umræddur hópur sér ígildi þriggja mánaðarlauna sem kom að hluta til greiðslu á árinu 2021 og að hluta til í upphafi árs 2022. Alls námu aukagreiðslur til forstjóra félagsins 11,1 m.kr. árið 2021 og aukagreiðslur til fjögurra framkvæmdastjóra námu samtals 22,9 m.kr. Nánari upplýsingar um launakostnað Símans má finna í skýringu 8 í ársreikningi fyrir árið 2021 og í skýringu 29 eru upplýsingar um launakostnað stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjórnar.
Fyrir starfsárið 2022 er breytilegi þáttur launakerfisins áfram byggður á sömu viðmiðum og á árinu 2021 og mun velta á EBITDA afkomu ársins 2022 (fyrir samstæðuna utan Mílu) og á einstaklingsbundnum atriðum.
Sú starfskjarastefna sem var í gildi fyrir árið 2021 var samþykkt á aðalfundi félagsins 2021. Hér má nálgast starfskjarastefnu Símans og starfsreglur starfskjaranefndar. Stjórn hefur lagt til við aðalfund 2022 að nokkrar breytingar verði gerðar á starfskjara-stefnu félagsins til að skýra betur mörk kaupaukagreiðslna og uppsagnarfresta. Verði þær breytingar samþykktar mun uppfærð starfskjarastefna verða birt á vef félagsins.
Traustur bakhjarl íslenskra heimila og fyrirtækja.
Árin 2021 og 2022 verða þau ár sem Símasamstæðan undirgengst einar stærstu breytingar í sögu sinni. Þannig voru umfangsmikil verkefni á sviði netrekstrar flutt frá Símanum til Mílu í upphafi árs 2021, samstæðan var endurfjármögnuð um vorið, greiddar voru háar upphæðir til hluthafa og endanlega gengið frá sölu Sensa um svipað leyti til norska upplýsingatæknifyrirtækisins Crayon. Seint á árinu var samið um sölu Mílu út úr samstæðunni sem er langstærsta einstaka stefnubreytingin. Kaupandinn, franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian, hefur afl og þekkingu til að byggja netkerfi Mílu hratt upp um allt land. Í ár, 2022, eru helstu verkefnin að efla Símann sem frístandandi og eignalétt þjónustufyrirtæki og ganga sem fyrst frá sölu Mílu í kjölfar endanlegrar niðurstöðu samkeppnisyfirvalda.
Í fyrra var athygli stjórnenda Símans bundin við margt annað en daglegan rekstur, ekki síst vegna breytinganna sem að framan greinir. Eins geisaði heimsfaraldur áfram allt árið, þó með mismiklum hömlum innan ársins og með síbreytilegum áhrifum á rekstur samstæðunnar. Að öllu samanteknu er sérlega gleðilegt að rekstrarniðurstaðan var sú hagfelldasta sem við höfum náð til þessa, í skilningi EBITDA framlegðar og hagnaðar. Samkeppnin í fjarskiptum og afþreyingu hélt áfram að harðna og er hún að mestu háð milli innlendra aðila, en þó í vaxandi mæli við alþjóðlega risa. Undanfarin ár hafa mál skipast þannig að meirihluti innlendra keppinauta Símasamstæðunnar nýtur margvíslegra styrkja af hálfu hins opinbera og erlendir keppinautar búa við léttari reglu- og skattbyrði en innlendir aðilar. Yfirvöld hljóta að leitast við að jafna leikvöllinn.
Tekjur stóðu að mestu í stað í fyrra, bæði hjá samstæðunni í heild og hjá Símanum sjálfum. Í farsíma jukust tekjur reyndar myndarlega og lítillega í gagnaflutningi og sjónvarpsrekstri. Afkomubatinn í rekstrinum í fyrra á uppruna sinn á kostnaðarhliðinni, sem aftur skýrist af hagræðingaraðgerðum sem að mestu var ráðist í árið 2020.
Um þessar mundir er fjárfest af miklum móð í innri kerfum og ferlum félagsins. Samhliða er aukinn þungi í uppbyggingu 5G með Ericsson sem tæknibirgja. Samningur um sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni var endurnýjaður til ársins 2025, en af þeim sökum og ýmsum öðrum er gæðaefni í sjónvarpsþjónustu Símans tryggt til næstu ára. Míla verður áfram langstærsti birgi Símans, fyrir og eftir breytingar á eignarhaldi þess, og hefur félagið aukið fjárfestingar sínar í ljósleiðaravæðingu landsins og útbreiðslu 5G senda.
Framtíð Símans sem sjálfstæðs þjónustufélags byggir því að traustum grunni. Starfsfólkið hefur staðið af sér öldurót undanfarinna ára og á hrós skilið. Með öllum þeim breytingum sem átt hafa sér stað verður mannskapur okkar og fyrirtækjamenning enn mikilvægari auðlind en fyrr til að við sem fyrirtæki náum markmiðum okkar um arðsemi eigin fjár og ánægðustu viðskiptavinina.
24.360 m.kr.
Tekjur Símans námu 24.360 m.kr. á árinu 2021.
5.459 m.kr.
EBITDA Símans nam 5.459 m.kr. árið 2021. EBITDA hlutfall var 22,4%.
5G sendar
Um síðustu áramót hefur 5G sendar verið settir upp á 31 sendistað.
Spilanir í Premium
Spilanir í Sjónvarpi Símans Premium: 50 milljónir.
Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem á og rekur fjarskiptainnviði á landsvísu
Jarðhræringar, eldgos, sóttvarnaraðgerðir, bólusetningar og örvunarskammtar voru hluti af tilverunni á einhverju viðburðarríkasta ári Mílu frá upphafi. Stærstu áskoranirnar voru þó þær miklu breytingar sem voru í gangi á árinu og fjölmörg verkefni tengd þeim.
Nýjar einingar sem komu til félagsins í ársbyrjun frá Símanum voru að fóta sig hjá Mílu og því fylgdu ýmsar áskoranir enda þurfti að aðlaga verkferla og koma upp góðri aðstöðu fyrir umfangsmikla og mikilvæga starfsemi.
Undanfarin ár hefur Míla verið hluti af heildarfjármögnun samstæðu Símans. Kaup Mílu á nýjum einingum voru fjármögnuð með seljendaláni og í kjölfarið var farið í að undirbúa sjálfstæða fjármögnun félagsins. Á vormánuðum var fjármagnsskipan félagsins breytt og Míla gerði sjálfstæðan lánasamning við Íslandsbanka. Um leið voru greiddi upp öll lán sem tilheyrðu samstæðu Símans. Míla er því nú með góða og sjálfstæða fjármögnun og samstarf við nýjan viðskiptabanka.
Söluferli Mílu var stórt verkefni sem átti sér nokkurn aðdraganda. Sú leið sem valin var kallaði á mikla undirbúningsvinnu og reyndi mikið á, bæði stjórnendur og starfsmenn. Salan á Mílu til Ardian sem tilkynnt var um miðjan október var stór frétt í íslensku viðskiptalífi. Í kjölfarið var mikil umræða um Mílu, hlutverk félagsins og hvernig eignarhaldi félagsins væri best komið. Umræðan varð sumpart pólitísk þar sem mikið var talað um en minna við Mílu. Í desember gerði Míla síðan samning við íslenska ríkið um kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra innviða í tengslum við söluna. Ráðherra Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunar sem fer með málaflokkinn í nýrri ríkisstjórn undirritaði samninginn sem ríkisstjórn hefur staðfest. Með samningnum er staðfest að fjarskiptakerfi Mílu uppfylla kröfur ríkisins um þjóðaröryggi en Míla hefur ávallt starfað samkvæmt ströngum reglum hins opinbera, hvort sem það eru reglur Fjarskiptastofu eða fjarskiptalög.
Þrátt fyrir að margt annað en daglegur rekstur krefðist athygli gekk rekstur félagsins nokkuð vel árið 2021 eins og undanfarin ár. Vegna nýrra eininga var reksturinn talsvert breyttur frá fyrri árum. Þessar einingar voru áður einn stærsti kaupandi að þjónustu Mílu og því urðu við kaupin miklar breytingar á tekjusamsetningu félagsins sem gerir samanburð milli ára erfiðari. Tekjuaukning milli ára var um 33% sem skýrist að mestu af fyrrgreindum breytingum. Þegar upp var staðið voru tekjur nærri áætlun og hið sama á við um rekstrarkostnað. Rekstrarniðurstaða ársins varð því vel ásættanleg.
Með tilkomu nýrra eininga var gert ráð fyrir talsverðri aukningu í fjárfestingum frá fyrri árum. Uppbyggingarverkefnin voru fjölbreytt og um allt land. Ljósleiðaravæðingin var eins og áður stærsta verkefnið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýli úti á landi. Í fyrsta sinn var talsvert meira fé sett í ljósleiðaravæðingu utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og mun sú þróun halda áfram. Í þéttbýli úti á landi voru verkefnin mörg og í öllum landshlutum. Í árslok náði útbreiðsla Mílu til 108 þúsund rýma sem er vel umfram væntingar í áætlun. Þá voru fjárfestingar í farsímadreifikerfi einnig miklar. 14 nýir sendastaðir voru settir upp á síðasta ári og í árslok voru staðirnir alls um 650. Stöðum fyrir 3G og 4G fjölgaði á meðan 2G stöðum fækkaði. 5G var síðan sett í gang á árinu sem var mikilvægur áfangi. Í tíðnileyfi Símans var sett skilyrði fyrir 30 5G sendastöðum en settir voru upp 31 sendar. Sett var upp á höfuðborgarsvæðinu, í Þorlákshöfn, á Egilsstöðum og Blönduósi auk Seyðishóla og þar með var útbreiðslukrafa tíðnileyfis Símans uppfyllt. Í árslok undirritaði Míla samning við Ericsson um áframhaldandi samstarf við uppbyggingu og rekstur farsímadreifikerfis Mílu. Samningurinn snýr að farsímasendum og bakendakerfum fyrir farsímadreifikerfi Mílu á landsvísu. Í stofnfjarskiptum gerðum við ráð fyrir stórri og mikilvægri uppfærslu bylgjulengdarkerfa félagsins en hingað til hafa þessi mikilvægu grunnkerfi verið uppfærð á 10-12 ára fresti. Vinna við val á birgja og tafir á afhendingu urðu til þess að það verkefni tafðist og verður að stórum hluta unnið á árinu 2022. Vegna stækkunarþarfar og aldurs var fjárfest í uppbyggingu nýs IP nets Mílu og áfram var fjárfest í tengingum nýrra viðskiptavina á ljósleiðara sem í árslok voru komnar yfir 45 þúsund.
Náttúruöflin minna okkur stöðugt á þær áskoranir sem fylgja rekstri fjarskiptakerfa og hafa áhrif á rekstur félagsins. Mikil bæting á varaafli víða um land og ljósleiðaravæðing ýmissa erfiðra fjarskiptastaða hafa gert okkar fjarskiptarekstur stöðugri og öruggari. Jarðhræringar á Suðurnesjum sem enduðu sem eldgos í Geldingadölum var uppspretta fjölbreyttra verkefna. Ljósleiðari fór undir hraun og eins og við var búist fór það ekki vel saman. Nýr strengur var virkjaður með hraði, að hluta ofanjarðar, koma þurfti á farsímasambandi á gossvæðinu og ýmislegt fleira. Öllu þessu fylgdi heilmikil eftirfylgni, eftirlit, uppsetning sviðsmynda og skoðun á mögulegum lausnum en mikill lærdómur varð einnig til.
Framundan eru spennandi tímar. Á næstu árum verður áfram fjárfest í uppbyggingu með áherslu á ljósleiðaravæðingu, 5G uppbyggingu og fjarskiptaöryggi. Með breyttu eignarhaldi mun Míla sem sjálfstætt innviðafyrirtæki verða í kjörstöðu til sækja fram og nýta eignir sínar og verðmæti til að gera enn meira fyrir fjarskiptamarkaðinn í heild.
8.586 m.kr.
Tekjur Mílu námu 8.586 m.kr. árið 2021.
5.101 m.kr.
EBITDA Mílu nam 5.101 m.kr. árið 2021. EBITDA hlutfall var 59,4%.
Uppbygging ljósleiðara
Fjöldi heimila með aðgang að ljósleiðara: 108.400
78 ma.kr.
Heildarvirði Mílu: 78 ma.kr.
Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning Símans hf. og dótturfélaga. Allar fjárhæðir eru í milljónum króna.
Síminn tengir gildi Símans við allar áherslur þegar kemur að sjálfbærni. Arðbær og ábyrgur rekstur ásamt því að umgangast umhverfið og fólk af virðingu skiptir okkur öllu máli. Síminn hefur notið trausts almennings frá stofnun, slíkt er áunnið og því skiptir okkur máli að vera virkur þáttakandi í samfélaginu og nýta þekkingu okkar og þjónustu til áframhaldandi góðra verka. Sjálfbærnistefna Símans var uppfærð á árinu og er rekstur Símans nú tengdur við þrjú Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.