Námsstyrkurinn er hluti af fimm ára samstarfsverkefni Símans og HR að fjölga ungum konum í tæknigreinum. Konurnar fimm eru nýnemar í HR og eiga það allar sameiginlegt að hafa sýnt framúrskarandi námsárangur í framhaldsskóla. Síminn vill þannig hvetja þær til áframhaldandi góðra verka og fjölga konum sem útskrifast úr tæknigreinum.
Þetta er annað árið í röð sem Síminn styður við ungar konur í tæknigreinum í samstarfi við HR og eru fyrirtækið og háskólinn gríðarlega stolt af samstarfinu. Styrkþegum eru færðar innilegar hamingjuóskir.
Erla Ósk Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni og menningar hjá Símanum:
Þörf atvinnulífsins fyrir fjölbreytileika í tæknistörfum hefur aldrei verið meiri en nú og þá sérstaklega með tilkomu gervigreindar. Langflest störf í dag byggjast að einhverju leiti á upplýsingatækni og það gerir þróun samfélagsins líka. Það er því mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að auka nýliðun kvenna og kvára í tæknigreinum en hlutfall þeirra í tölvunarfræði, hugbúnaðarverkfræði og hátæknifræði er aðeins um 20% .
Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs, Háskólinn í Reykjavík
Með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar sjáum við fram á að eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki mun bara aukast í náinni framtíð. Þó svo að hlutfall kvenna sé hátt í mörgum háskólagreinum, sjáum við enn mikinn kynjahalla gagnvart konum í ýmsum tæknigreinum, eins og tölvunarfræði, verkfræði og tæknifræði. Því er mikilvægt að hvetja konur og kvár til að sækja sér menntun í tæknigreinum, til að fá sem fjölbreyttastan hóp af fólki inn í tæknigeirann.
Styrkþegar Samfélagssjóðs Símans, konur í tæknigreinum við HR 2023-2024 eru:
Berglind Nína Antonsdóttir, tölvunarfræði
Esja Kristín Siggeirsdóttir, tölvunarfræði
Hera Brá Tómasdóttir, hugbúnaðarverkfræði
Karólína Bæhrenz Lárudóttir, tölvunarfræði
Sif Jónasdóttir, hátækniverkfræði