Ef aðgangsupplýsingar okkar á einum stað leka út reyna óprúttnir aðilar að nota þær upplýsingar til að komast inn á öðrum stöðum. Og þar sem að við samnýtum oft lykilorð er leiðin greið fyrir þessa þrjóta að komast þangað sem þeir eiga ekki að komast.
Í stafrænum heimi þarf hvert okkar að hugsa um lykilorð fyrir tugi aðganga að mismunandi kerfum og öppum, í vinnu og einkalífi. Við reynum okkar besta, höfum kannski okkar heimasmíðaða kerfi um hvernig sé best að hafa lykilorðin okkar en allskonar reglur um lykilorð flækjast svo fyrir eins og um fjölda tákna, há- og lágstafi auk þess að skipta þarf oft um lykilorð.
Tveggja þátta auðkenning, að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði og einnig með sérstakri vartölu úr appi hefur svo bæst við. Tveggja þátta auðkenning eykur vissulega öryggið en mörgum finnst þetta bara vera óþarfa flækjustig og vesen og sjá kannski ekki tilganginn með þessari leið.
En blessunarlega eru lykilorðin á útleið. Það er vilji stærstu hliðvarða internetsins sem hafa nú sameinast um að nýta FIDO, opinn og gjaldfrjálsan staðal til að færa lykilorðin á endastöð, og þannig nýta aðrar leiðir til að auðkenna okkur inn á þá staði sem að við þurfum að komast inn á.
Apple, Google og Microsoft hafa tekið höndum saman að innleiða þessa auðkenningarleið og þannig nýta þau tæki sem að við notum í dag til að auðkenna okkur, á einfaldan hátt án þess að öryggi gagna og persónuupplýsinga sé stefnt í hættu. Þessi þrjú stórfyrirtæki stýra öllum helstu stýrikerfum sem eru í notkun í heiminum í dag og þannig opnast þessi leið fyrir okkur öll, en ekki bara sum okkar. Og þessi leið mun virka á milli stýrikerfa óháð tækjum og þannig ætti notandi á Windows tölvu í Google Chrome vafra að geta auðkennt sig á Apple iPhone síma án vandræða.
Í raun svipar þessi auðkenningarleið til tveggja þátta auðkenningar en ferlið er þó einfaldara og án allra lykilorða, auðkenningin fer fram í gegnum dulkóðaðan öryggislykil sem fer sjálfvirkt á milli tækjanna og við staðfestum hver við erum með fingrafari, andlitinu okkar eða PIN kóða á símanum.
Hvenær nákvæmlega þetta verður er erfitt að segja til um, mögulega strax á næsta ári. En því fyrr því betra fyrir okkur sem notendur og kerfisstjórana okkar sem hafa áhyggjur af netöryggi okkar alla daga.