Önnur þáttaröðin frá ævintýraeyjunni Tulipop er nú komin í loftið þar sem áhorfendur upplifa ævintýri Glóa, Búa, Fredda og Maddýar sem lenda í allskonar uppákomum með öllum skrautlegu verunum sem búa á Tulipop. Framleiðsla þáttanna er sprottin upp úr íslensku frumkvöðlastarfi en árið 2010 stofnuðu þær Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir fyrirtækið Tulipop sem hefur vaxið í takti við vinsældir ævintýraheimsins.
Þættirnir eru ekki aðeins frábær skemmtun heldur undirstrika mikilvægi vináttu, náungakærleiks og fjölbreytileikans sem lífið hefur upp á að bjóða.
Birkir Ásgeirsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum:
„Við erum afskaplega stoltur samstarfsaðili Tulipop því það skiptir okkur máli að framleitt sé vandað gæða barnaefni á íslensku. Nú er önnur þáttaröðin af fjórum komin í loftið og ég tel mig vita að yngstu áhorfendur okkar taka nýju þáttunum fagnandi“