Í gær héldu Apple árlega haust kynningu sína þar sem þau sviptu hulunni af öllu því sem þau hafa verið að þróa. Þar var ótrúlega margt kynnt í þetta skiptið, meira en oft áður fannst manni og því gott að renna aðeins yfir það helsta.
Fyrir þau sem ekki nenna að lesa þessa yfirferð má benda á t.d. umfjöllun The Verge um kynninguna á YouTube sem þó er hálftími.
iPhone 14 kemur í sölu hjá Símanum þann 23. september.
En áfram höldum við og fyrst skulum við líta á nýju símana.
iPhone 14 fjölskyldan
Alls kynntu Apple fjóra nýja síma. iPhone 14, iPhone 14 Plus, iPhone 14 Pro og iPhone 14 Pro Max.
iPhone 14 og iPhone 14 Plus eru bræður sem deila sama útliti og sama innvolsi að mestu En Plúsinn er með stærri skjá, 6,7“ í stað 6,1“. Útlit tækjanna er útlit sem að við þekkjum en þeir eru nauðalíkir iPhone 13.
Myndavélarnar á iPhone 14 og iPhone 14 Plus hafa verið uppfærðar, Apple segir þær sem dæmi vera 49% betri þegar kemur að myndatöku við léleg birtuskilyrði og að hinn frábæri eiginleiki Night Mode sé tvisvar sinnum hraðvirkari en áður. Að framan er svo komin 12 megapixla TrueDepth myndavél með sjálfvirkum fókus. Action Mode er svo nýr eiginleiki sem á að hjálpa til við að jafna út hristing þegar verið er að taka upp myndbönd í einhverjum hasar.
Rafhlaðan ætti einnig að endast betur, sérstaklega á Plúsnum sem Apple segir skila bestu rafhlöðuendingu í sögu iPhone síma. iPhone 14 og iPhone 14 Plus eru því frábær uppfærsla frá fyrri tækjum, engar stórar fréttir en gott gert betra.
iPhone 14 Pro og iPhone 14 Pro Max
Hér eru kannski hin alvöru nýju stóru tæki, með nýtt útlit og fullt af nýjum eiginleikum sem að ættu að heilla marga notendur iPhone. iPhone 14 Pro skartar 6.1“ skjá og er 206 grömm en Pro Max skartar 6,7“ skjá og vegur 240 grömm.
Bæði iPhone 14 Pro og Pro Max innihalda nýjan örgjörva, A16 Bionic sem er þróaður af Apple sjálfum en helstu eiginleikar hans eru betri orkusparnaður, betri stýring á skjá og myndavél.
Í fyrsta skipti eru hér komnir iPhone símar sem fara frá 12 megapixla myndavél og stökkið er stórt, nú er 48 megapixla myndavél sem getur tekið inn meira af upplýsingum og þannig skilað enn betri myndum og myndböndum. Þannig ættu myndir teknar við léleg birtuskilyrði að vera enn betri sömuleiðis og myndbönd einnig skarpari og í hærri upplausn.
Víðlinsan ætti einnig að færa okkur enn betra macro-myndir, myndir sem sýna litla hluti sem stóra og ná öllum smáatriðum þeirra. Gott dæmi um slíkt er að taka myndir af mat og úti í náttúrunni.
Stóra fréttin hér er þó án nokkurs vafa breytingin á svarta hakinu efst á skjánum sem hefur hýst myndavél, hátalara og hljóðnema og kynnt var 2017 þegar að iPhone X kom til sögunnar.
Hakið er horfið á iPhone 14 Pro og iPhone 14 Pro Max og í staðinn er komin smár skjár sem Apple kalla „Dynamic Island“ en þessi skjár minnkar og stækkar eftir þörfum og getur sýnt tilkynningar, stjórnað forritum og tónlist og mörgu fleiri eftir því að framleiðendur forrita aðlaga sig að þessum nýja örlitla skjá. Ótrúlega töff í útliti og verður spennandi að sjá hvernig forrit munu geta nýtt sér þessa nýjung.
Airpods Pro
Apple kynntu einnig ný og uppfærð Airpods Pro heyrnartól, hin fyrri voru talin ein af þeim bestu í þessum flokki og því mikil eftirvænting eftir hinni nýju kynslóð Airpods Pro.
Í hinum nýju Airpods Pro er búið að setja H2 örgjörva sem á að skila enn betri hljómgæðum og betra noise cancelling sem er tæknin sem útilokar umhverfishljóð en hún á nú að vera helmingi betri ásamt því að geta enn betur hleypt inn þeim hljóðum sem við viljum hleypa í gegn, eins og þegar reynt er að tala við mann þó heyrnartólin séu í eyrunum.
Rafhlaðan er einnig betri og ætti að skila sex klukkustundum á einni hleðslu með noise cancellation. Hleðsluboxið sem heyrnartólin hvíla í þegar þau eru ekki í notkun hefur einnig verið uppfært, styður nú Find My þjónustu Apple og hafa innbyggðan hátalara svo leikur einn ætti að vera að finna hleðsluboxið þegar það er týnt.
Apple Watch
Apple kynntu einnig ný og uppfærð snjallúr. Apple Watch Series 8 er eitt af þeim nýju en það hefur nýjan hitanema og þannig ætti úrið að geta mælt líkamshita með nokkuð góðri nákvæmni sem Apple segir t.d. geta nýst konum að fylgjast með tíðahring og egglosi, gögn sem eru dulkóðuð og geymd á úrinu sjálfu og fara því aldrei upp í skýið.
Apple Watch SE var einnig uppfært lítillega með nýjum örgjörva, þeim sama og í Apple Watch Series 8 sem þýðir að Apple Watch SE ætti að vera enn kvikara og rafhlaðan að endast lengur.
Apple kynntu svo Apple Watch Ultra, úr sem hefur lengi verið talað um en lítur nú loksins dagsins ljós. Apple Watch Ultra er stórt úr og sérstaklega hugsað fyrir þau sem stunda mikla útivist og hreyfingu. Watch Ultra er því með stærri rafhlöðu en önnur Apple úr, Apple segir hana eiga að endast allt 36 tíma. Og það sem meira er, Apple Watch Ultra er snjallúr sem virkar þó að þú sért í hönskum.
Úrið er svo sterkbyggt að það má kafa með það allt að 40 metra, það hentar fyrir þríþrautarfólk og með einum takka má skipta á milli hlaups, hjólreiða og sunds. Hér er því komið Apple Watch sem getur keppt við hin þekktu íþróttaúr sem mörg þekkja frá framleiðendum eins og Garmin og Polar.