Síminn og strákasveitin IceGuys hafa náð samkomulagi um gerð sjónvarpsþátta sem munu fjalla um strákasveitina vinsælu. IceGuys skipar einvalalið en í sveitinni eru Aron Can, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Jón Jónsson og Rúrik Gíslason.
Þættirnir verða í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, Allans Sigurðssonar og Hannesar Arasonar í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Atlavík og verða þeir frumsýndir í Sjónvarpi Símans Premium í október næstkomandi.
Áhorfendur munu fá að skyggnast bakvið tjöldin og fylgjast með hæðum og lægðum IceGuys á meðan þeir feta sig í nýjum hlutverkum sem meðlimir í vinsælli súpergrúbbu enda meðlimir allir þekktir tónlistarmenn sem hafa fyrir margt löngu stimplað sig inn í hjörtu landsmanna hver á sínum forsendum. Nú tekur við næsti kafli.
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum:
„Það er sannkölluð rós í hnappagat íslenskrar dagskrárgerðar hjá Sjónvarpi Símans að landa samningi við strákasveitina IceGuys um gerð sjónvarpsþátta. Við erum afskaplega spennt að sýna áhorfendum afraksturinn í haust enda strákarnir ekki aðeins frjóir og einlægir í listsköpun sinni heldur einnig meira en tilbúnir að opna sig fyrir framan myndavélarnar og sýna þannig sína innri menn.“