iPhone 15 og iPhone 15 Plus
Byrjum á „venjulega“ iPhone og iPhone 15 Plus, þeir eru eins nema að Plúsinn er með 6.7“ tommu skjá í stað hinnar hefðbundnu 6.1“ skjástærðar. Skjárinn er Super Retina XDR skjár sem nær allt upp í 1.600 nits birtustig þegar horft er t.d. á Dolby Vision efni, HDR myndir og myndbönd.
Stóra málið er svo að öll tækin í ár eru með USB-C tengi í stað lightning tengis sem hefur verið í iPhone símum síðan 2012 og þannig hefur Apple sett sama hleðslutengi á sína síma eins og allir aðrir framleiðendur snjallsíma hafa gert í nokkur ár. Sama tengi og Apple sjálf hafa svo notað á fartölvunum sínum og á iPad spjaldtölvum. USB-C kapall hleður ekki aðeins tækin heldur getur flutt hljóð og mynd ásamt því hægt er að hlaða Apple Watch með því einu að tengja hleðslutækið fyrir úrið bara beint í símann.
Hitt stóra málið við iPhone 15 er svo klárlega uppfærslan á myndavélinni sem verður 48MP í stað 12MP áður sem er ótrúlega stórt stökk og í raun kærkomið. Rafhlaðan er einnig stærri og Apple lofar að hleðslan dugi auðveldlega allan daginn ásamt því að iPhone 15 keyrir á A16 örgjörva Apple sem var í iPhone 14 Pro og Pro Max símunum og við þekkjum af góðu einu.
Við verðum svo að nefna „Dynamic Island“, litla skjáinn sem kynntur var til leiks í fyrra í iPhone 14 Pro og Pro Max og er nú í öllum iPhone símum. Þessi litli skjár minnkar og stækkar eftir þörfum og aðlagar sig að þeim forritum sem eru í gangi hverju sinni með mismunandi virkni og eiginleikum.
iPhone 15 Pro og iPhone 15 Pro Max
Stóru tækin eru endurhönnuð að hluta með títaníum umgjörð sem Apple segir að auki endingu þeirra og styrkleika ásamt því að þau verða léttari fyrir vikið enda títaníum léttmálmur. Fyrir einhver er hinn nýi „action“-takki ný og spennandi viðbót sem eykur virkni takkans á hliðinni sem hefur slökkt og kveikt á hljóði símhringingar. Nú getur notandinn stillt hvað takkinn gerir!
Nýr örgjörvi, A17 Pro með sex kjörnum keyrir tækin áfram, 3 nm kubbasett með 19 milljörðum hálfleiðara ásamt sex kjarna skjástýringu sem á að skila enn hraðari og betri vinnslu á alla vegu.
Myndavélin hefur verið uppfærð og getur nú tekið upp þrívíða afstöðusjón (3D spatial vision) sem hægt verður að skoða með hinum nýju Apple Vision Pro sýndarveruleika gleraugum sem Apple hefur þegar kynnt. iPhone 15 Pro Max er svo með aðdráttarlinsu með fimmfaldri þysjun (5x zoom).
AirPods Pro
Þráðlausu heyrnartólin fá einnig að vera með í USB-C skrúðgöngunni til að samræma loks Apple tækin. Þó það hafi verið sagt á kynningunni eru heyrnartólin sjálf þó lítillega uppfærð þannig að þau þola betur ryk ásam auðvitað vatni og svita eins og áður en þessi nýja útgáfa styður einnig óþjappað hljóð (e. lossless) sem styður við Apple Vision Pro sýndarveruleika gleraugun sem koma síðar. Því eru þetta fyrstu þráðlausu heyrnartól Apple sem styðja við óþjappað hljóð og fyrir áhugasöm erum við hér að tala um nýja tegund víxlbreyta (e. codec) sem styður 20 bita, 48 kHz þráðlaust hljóðstreymi.
Apple Watch Series 9
Nýjasta útgáfan af Apple úrinu er útlitslega eins og fyrri útgáfur en með mjög breyttu innvolsi en nýja úrið er með nýju uppfærðu kubbasetti sem Apple segir að sé 30% hraðara þökk sé 5,6 milljörðum hálfleiðara og nýrri skjástýringu sem á að skila öllu þessu afli af miklum sóma. Siri á að vera enn hraðari og betri en áður að skilja okkur og skipanir okkar eru nú unnar allar á úrinu en þurfa ekki fara upp í skýið til vinnslu sem útskýrir bætta upplifun.
Skjárinn hefur einnig verið uppfærður og getur bæði orðið talsvert bjartari en áður en líka miklu dekkri sem hentar vel í t.d. kvikmynda- og leikhúsum og þar sem birta af snjalltæki á ekki að draga athyglina að sér.
Úrið er einnig með þann eiginleika að geta fundið iPhone síma með mikilli nákvæmni svipað og AirTags þökk sé sérstökum „wide band“ kubbi sem er í úrinu. Þessi virkni mun þó aðeins ganga með iPhone símum sem hafa sama kubbinn til að tala á móti en ekki öllum.
Apple Watch Ultra 2
Apple kynntu einnig uppfærða útgáfu af sínu stærsta snjallúri. Það verður að segjast að ekki sé mikið um nýja eiginleika enda forverinn með alla heimsins eiginleika en hér er þó allt það sem nýtt er í Apple Watch Series 9 ásamt sama örgjörva en skjárinn er þó uppfærður og getur nú verið helmingi bjartari ásamt því að sérstakur birtuskynjari getur sjálfkrafa skipt yfir í „night mode“ sem sparar rafhlöðuna.
Skráðu þig á forskráningarlistann okkar og fáðu fréttir um leið og iPhone 15 lendir hjá okkur.
Skráning fer fram hér!