HSÍ og Síminn hafa tekið höndum saman og mun Síminn verða tæknilegur samstarfsaðili HSÍ svo hægt sé að njóta Olís deildarinnar í handbolta heima í stofu eða í snjalltækjum um allt land.
Notuð verður nýjasta tækni en HSÍ mun setja upp sjálfvirkar myndavélar sem nýta gervigreind og taka upp leikina og sjónvarpskerfi Símans tekur við útsendingunni og færir heim í stofu í myndlykil eða Sjónvarp Símans appið.
Í hverri viku verður einn leikur í Olís deild karla og kvenna í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans með ítarlegri umfjöllun en allir leikir tímabilsins verða sendir út í beinni útsendingu. Í fyrsta sinn er íþróttasamband á Íslandi að stýra sjálft sínum útsendingarrétti með völdum samstarfsaðilum en Síminn mun sjá um dreifingu á Olís deildinni ásamt gjaldfærslu og mun þessi nýja nálgun opna á áður óþekkta möguleika í íslenskum handbolta. Þannig mun verða hægt að nýta innviðina sem HSÍ hefur sett upp til útsendinga úr neðri deildum sem og leikjum yngri flokka sem mun aðeins styrkja og styðja við félögin, iðkendur og aðdáendur handbolta á Íslandi.
Áskrift að Olís deildinni verður gjaldfrjáls fyrstu tvo mánuðina en mun síðan kosta 1.290 á mánuði.