Grínistarnir Villi Neto og Vigdís Hafliða halda af stað í eyja-ferðalag þar sem þau heimsækja nokkrar ólíkar eyjar í Atlantshafinu og komast að því hvernig er að lifa þar. Hvernig matur er borðaður á Asór-eyjum, hvernig íþróttir eru á Kanarí, hvaða þjóð dansar best eða syngur fallegast? Í þessari bráðskemmtilegu þáttaröð munu Villi og Vigdís kafa ofan í það sem skilgreinir eyjarnar og taka þátt í daglegu lífi en gleyma samt alls ekki að hafa gaman og skemmta sér. Matur, menning og mannlíf ólíkra eyja í Atlantshafi er aðeins brota brot af því sem tvíeykið kynnir sér á þessu framandi ferðalagi. Þau skoða söguna, náttúruna og dýralífið ásamt daglegu lífi íbúanna. Þau heimsækja líka Vestmannaeyjar og reyna þannig að skilja hvort við eigum eitthvað sameiginlegt með öðrum eyjaskeggjum í Atlantshafinu.